Mikið hefur verið rætt og ritað um trommunám við Tónlistarskólann undanfarin ár. Einhverjum hefur þótt gæta misræmis í hverjir hafa verið teknir í trommunám við skólann. Á því eru eðlilegar skýringar, en kannski hefur ekki öllum fundist þær skýringar réttmætar.
Í framhaldi af því, og vegna sérkennilegrar umræðu sem hefur átt sér stað á samfélagsmiðlum, en ekki alltaf við skólastjórnendur, hefur verið ákveðið að framvegis verði umsækjendur settir í inntökupróf eða færnimat ef þörf krefur.
Í raun og veru mun þetta gilda fyrir allar námsleiðir í skólanum og áskilur skólinn sér rétt til að hafna innritun nemenda á tiltekin hljóðfæri og/eða í söng, eftir því hvernig hver nemandi er metinn af kennara í viðkomandi grein.
Telur skólastjóri að þetta sé réttlátari aðferð en miða við tiltekinn aldur og verður þetta viðhaft frá og með næsta skólaári.
Minnt er á að sækja um skólavist sem fyrst vegna þess að nú þegar er biðlisti við skólann.