Greinasafn fyrir flokkinn: Óflokkað

Nótan 2015

Nú í vetur var ákveðið á vettvangi samstarfsaðila um Nótuna að ekki yrði landskeppni með sama sniði og undanfarin ár. Ástæðurnar eru margþættar, t.d. setti verkfall í haust starf í mörgum skólum í mikið uppnám og ekki allsstaðar hægt að vinda ofan af því. Fjármálin voru líka stór þáttur í þessari ákvörðun, ekki síst sú staðreynd að ekki fékkst styrkur til að halda keppnina í Hörpu.

Í framhaldi af þessari ákvörðun var ákveðið að þeir skólar á Austurlandi og Norðurlandi sem hefðu áhuga á að halda einhverskonar sameiginlega uppskeruhátíð myndu gera það. Nú er komið í ljós að þó nokkrir skólar hafa sýnt því áhuga og verða haldnir tónleikar í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði laugardaginn 14. mars. Tímasetning er ekki komin á hreint, en það fer eftir fjölda skóla sem taka þátt.

Jólatónleikar

jolajolaNú eru síðustu kennsludagar á haustönn að renna sitt skeið og jólatónleikar framundan. Á Stöðvarfirði verða jólatónleikarnir þriðjudaginn 16. desember kl. 18 í Stöðvarfjarðarskóla. Á Fáskrúðsfirði verða tónleikarnir miðvikudaginn 17. desember kl. 18:00.

Aðalæfing fyrir tónleikana verða kl. 15:00 sama dag. Þar eiga allir sem taka þátt í tónleikunum að mæta.

Tónleikarnir verða með hefðbundnu sniði. Nemendur hafa verið mjög duglegir að æfa sig fyrir tónleikana, þó vissulega hefði verið gott að hafa heldur lengri undirbúningstíma. En allir gera sitt besta til að stemmningin verði góð og tónleikagestir fái notið fallegrar jólatónlistar.

Jólakveðjur

Verkfalli FT lokið

Löngu og ströngu verkfalli Félags Tónlistarskólakennara er nú lokið. Verkfallið setti mjög stórt strik í reikninginn hjá tónlistarskólum í landinu og er okkar skóli engin undantekning.

Tónlistarskóli Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar stefnir að því að halda jólatónleika eins og venjulega þó einungis tæpar þrjár vikur séu eftir af haustönninni. Nemendur sem ætla að taka þátt í tónleikunum þurfa að vera einstaklega duglegir að æfa sig til að tónleikarnir geti orðið sem bestir.

Sumarfrí

Þá er vetrarstarfi Tónlistarskólans nánast lokið. Vortónleikar voru haldnir 19. og 20. maí, og voru vel heppnaðir og vel sóttir.

Ekki þarf að sækja sérstaklega um áframhaldandi skólavist nemenda, en beiðni um allar breytingar á námi er æskilegt að berist til skólans fyrr en seinna. Þeir sem hyggja á að sækja um skólavist eru hvattir til að gera það sem allra fyrst því biðlisti er við skólann. Hlekkur á rafræna umsókn er hér á síðunni.

Takk fyrir veturinn og gleðilegt sumar!

Færnimat

Mikið hefur verið rætt og ritað um trommunám við Tónlistarskólann undanfarin ár. Einhverjum hefur þótt gæta misræmis í hverjir hafa verið teknir í trommunám við skólann. Á því eru eðlilegar skýringar, en kannski hefur ekki öllum fundist þær skýringar réttmætar.

Í framhaldi af því, og vegna sérkennilegrar umræðu sem hefur átt sér stað á samfélagsmiðlum, en ekki alltaf við skólastjórnendur, hefur verið ákveðið að framvegis verði umsækjendur settir í inntökupróf eða færnimat ef þörf krefur.

Í raun og veru mun þetta gilda fyrir allar námsleiðir í skólanum og áskilur skólinn sér rétt til að hafna innritun nemenda á tiltekin hljóðfæri og/eða í söng, eftir því hvernig hver nemandi er metinn af kennara í viðkomandi grein.

Telur skólastjóri að þetta sé réttlátari aðferð en miða við tiltekinn aldur og verður þetta viðhaft frá og með næsta skólaári.

Minnt er á að sækja um skólavist sem fyrst vegna þess að nú þegar er biðlisti við skólann.