Greinasafn fyrir flokkinn: Fréttir

Fréttir af skólastarfinu

Nýjar sóttvarnarreglur frá 3. nóvember

Á miðnætti 30. október tóku nýjar sóttvarnarreglur gildi þar sem kveðið er á um fjöldatakmarkanir og grímuskyldu. Í tónlistarskólanum höldum við kennslu nánast óbreyttri en leggjum ríka áherslu á sóttvarnir og hreinlæti. Nemendur eiga að mæta með sín eigin hljóðfæri í skólann eins og hægt er. Við reynum að halda tveggja metra fjarlægð en ef það er ekki hægt eiga nemendur og kennarar að vera með grímu. Þetta gildir ekki um yngri nemendur þ.e. 1. – 4. bekk grunnskóla. Hópastarf fellur niður í tónlistarskólanum þar á meðal kóræfingar.

Mig langar til að biðja alla um að fylgjast vel með fréttum, bæði á landsvísu en einnig frá aðgerðarstjórninni hér fyrir austan á heimasíðu Fjarðabyggðar en þar verða settar inn tilkynningar um þetta mál.

Nú pössum við okkur mjög vel. Höldum fjarlægð, notum grímur, þvoum hendur vel með sápu og vatni fyrir og eftir kennslustundir, notum spritt þess á milli og þrífum hljóðfærin.

Vöndum okkur og vinnum þetta saman.

Covid-19 eða Corona veiran

Eins og fram hefur komið og ætti ekki að hafa farið fram hjá neinum hafa Almannavarnir lýst yfir neyðarstigi í viðbrögðum við Covid-19 veirunni.

Allir skólar hafa fengið tilmæli um viðbrögð til að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar og er Tónlistarskólinn engin undantekning. Nú er gengið í gildi samkomubann en ennþá eru grunn- og leikskólar opnir. Ekki hefur verið sérstaklega rætt um tónlistarskóla en líkast til verða sömu reglur um þá og grunnskóla.

Við viljum biðja nemendur um að gæta fyllsta hreinlætis í Tónlistarskólanum sem og annarsstaðar. Allir nemendur EIGA að þvo hendur sínar mjög vel með vatni og sápu ÁÐUR en mætt er í tónlistartíma og líka eftir tímann. Nemendur eru hvattir til að nota sín eigin hljóðfæri ef það er mögulegt. Nemendur eiga ekki að leyfa öðrum að nota sín hljóðfæri og þá sérstaklega blásturshljóðfæri. Annars er almennt hreinlæti eins og tíður handþvottur og hósta og hnerra í olnbogabót best til að stemma stigu við veirunni.

Ef til lokunar Tónlistarskólans kemur munu kennarar vera í sambandi við nemendur í síma, tölvupósti eða með öðrum leiðum til að nemendur geti stundað heimaæfingar eins og mögulegt er og haldið sínu striki.

Smelltu hér til að komast á vef landlæknis þar sem eru upplýsingar um viðbrögð og góð ráð.

Jólatónleikar og dagskrá fyrir jól

Nú er jólavertíðin að ná hámarki í Tónlistarskólanum. Jólatónleikar yngri nemenda og byrjenda verða á Fáskrúðsfirði 12. desember kl 18 Tónleikar verða á Stöðvarfirði 14. desember kl. 18 og á Fáskrúðsfirði 18. desember kl. 18.

Söngstubbar taka þátt í jólatónleikum Eyþórs Inga í Fáskrúðsfjarðarkirkju 1. desember og á aðventukvöldi í Fáskrúðsfjarðarkirkju 7. desember.

Grease

Grunnskóli Fáskrúðsfjarðar setti upp söngleikinn Grease á árshátíð sinni á dögunum. Tónlistarskólinn sá um alla tónlist og tæknimál á árshátíðinni. Kennarar og nemendur Tónlistarskólans mynduðu hljómsveitir og sáu um undirleikinn. Einnig þjálfuðu kennarar Tónlistarskólans söngva og dans í hópatriðum. Þetta var mikill skóli og skilaði nemendum og áhorfendum miklu.

Mikið fjör.

Skólaárið 2017 – 2018 að hefjast

Nú stendur yfir innritun og skráning nemenda í Tónlistarskólann. Heldur fjölgar nemendum sem er gott. Þeir nemendur sem voru í námi við skólann á síðasta skólaári innritast sjálfkrafa á þetta skólaár. Ef einhverjar breytingar eiga að verða þarf að láta vita svo fljótt sem auðið er. Nýir nemendur sækja um skólavist rafrænt hér á heimasíðu skólans.

Kennarar við skólann verða fjórir í vetur. Það eru Berglind Ósk Agnarsdóttir, Suncana Slamnig, Charles Ross og Valdimar Másson, skólastjóri.

Boðið er  upp á kennslu á flest öll hljóðfæri.

Anya Hrund vann Nótuna 2017

Sunnudaginn 2. apríl 2017 fór lokakeppni Nótunnar 2017 fór fram. Frábærir tónlistarnemendur komu fram á þessum tónleikum en okkar frábæra Anya Hrund Shaddock kom, sá og sigraði á sunnudaginn. Hún flutti verkið Clair de lune eftir Claude Debussy með eftirminnilegum hætti og stóð uppi sem handhafi Nótunnar 2017. Kennarar tónlistarskólans eru verulega stoltir af henni og óska henni til hamingju.

Hér fyrir neðan er hlekkur á myndband með flutningi Önyu á lokahátíðinni.